laugardagur, febrúar 27, 2010

Þjóðarsportið

Fór eftir vinnu í létt skokk í kringum Lake Baldwin.  Nennti ekki tvo hringi og renndi upp á aðalleiksvæðið í dúkkulísuhverfinu.  Þar eru nokkrir hafnaboltavellir og staldraði ég við á einum þeirra.  Hafnabolti á víst að vera þjóðarsport þeirra Ameríkana en það er sama hversu lengi eða mikið maður spáir í þessu, það er engin leið að hafa gaman af þessu.

Í þessu sporti gerist nákvæmlega ekki neitt.  Þarna stóðu krakkagreyin á öllum höfnum (bases) og einn kastari (pitcher) gerði sitt besta til að hitta nálægt sláaranum (batter) en því miður, fyrir alla, hitti kastarinn mjög sjaldan nálægt sláarnum og ef hann var nálægt þá hitti sláarinn aldrei boltann.  Það þýddi að enginn af krakkagreyjunum sem stóðu út um allan völl höfðu eitthvað að gera, þau stóðu bara þarna eins og klessur.

Í atvinnumannadeildinni NBL, þar sem fullorðnir karlmenn fá gríðarlegar upphæðir fyrir að gera ekki neitt, gerist nákvæmlega sami hluturinn sí og æ.  Leikurinn fer fram í lotum (innings) og enda þær oft og iðulega 0-0.  Það þýðir að kastarinn hefur slegið út alla sláarana og því er ekkert skorað í lotunni.  Þegar þetta gerist aftur og aftur og leikurinn endar á litlu sem engu skori, sem þýðir að nær ekkert hafi gers í leiknum allan tímann.  En það þýðir engan veginn að kananum sé ekki skemmt.  Þetta kallar hann "Classic Pitcher duel", situr svo með pylsuna og bjórinn upp í stúku glaður í bragði.  Ömurlegt þ.e. fyrir utan bjórinn.

mánudagur, febrúar 22, 2010

Umferð og almenningssamgöngur

Nú er maður búinn að vera hérna í tæpan mánuð og eitt það leiðinlegasta við umhverfið er bílinn.  Hér fer maður ekkert gangandi.  Hvert sem maður þarf að fara er nauðsynlegt að stíga upp í bílinn og halda af stað.  Allt er hugsað með bílinn í öndvegi.  Að sjálfsögðu þýðir þetta einnig að á annatímum er alltaf bifreiðarstappa og maður hangir í klukkutíma til þess að komast 10 mínútna leið þegar maður fer heim úr vinnu.

Til þess að tryggja að þetta ástand haldi eru nánast engar almenningssamgöngur.  Einhverjir örfáir strætóar sem sjást endrum og eins en eins og menn geta giskað á, eru þeir allir tómir.  Engar innanbæjar lestar eða eitthvað í þá áttina.  Lifi bíllinn.

Ég fer samt gangandi ef ég get, öll hreyfing er góð hreyfing.  Heyrði eina góða sögu af Íslending nokkrum sem gekk í háskóla hér í landi.  Eitt skiptið þegar hann var að ganga í skólann hægir aðvífandi bíll á sér og glugginn opnast, amerískt andlit stingst út um gluggan og galar kaldhæðninslega "looser".  Það labbar enginn í the States nema nauðbeygður.

sunnudagur, febrúar 14, 2010

Úfabíó

Það er fátt amerískara heldur en að fara í bíó.  Maður hefur ekki farið mikið í bíó seinustu árin nema þá helst með guttunum sem reyndar er hin mesta skemmtun þrátt fyrir að maður fái aldrei að velja ;(  Núna er maður á hinn bóginn einn á báti og því er valið mitt !  Fullt af flottum myndum í bíóinu í Mollinu rétt hjá dúkkulísuhverfinu - Premier Cinemas

Valið stóð á milli Edge of Darkness með Mel Gibson, Legend, Book of Eli og Wolfman.  Þar sem að Wolfman var næst í tíma þá varð hún fyrir valinu. 

Úlfur úlfur

Hörku úlfamynd með dassi af blóði og innyflum.  Flott umgjörð og eitthvað svo sannarlega fyrir mig.  Hræddur um að Hrönn hefði aldrei farið með mér á þessa, hefði verið komin í fangið á mér eftir 5mín og ekki farið þaðan fyrr en myndinni væri lokið.  Eða þá farið út eftir 5mín og farið að versla í mollinu, sennilegri kostur.

föstudagur, febrúar 12, 2010

Árekstur !

Ekki er veðrið að skána hérna í Flórída og má segja að stöðug rigning dagsins hafi svo sannarlega sett mark sitt á daginn.  Þegar leið á daginn var ég búinn að mæla mér mót við mann nokkurn og þurfti að keyra þvert yfir borgina til þess að hitta hann.  Traffíkin var mikil og gekk afskaplega hægt.  Sennilega bæði vegna þess að það er föstudagur og svo hafði vatnsveðrið örugglega sín áhrif.  Þegar ég var að nálgast ætlunarstað minn lendi ég í árekstri.  Ungur maður, Jose Rosario, var heldur að flýta sér í vinnuna og keyrir aftan á mig. 

Það tók síðan næstu tvo tímana að greiða úr flækjunni.  Orange County Highway Patrol mætir á staðinn vinnur skýrlsuna og niðurstaðan er sú að ég eigi sök á árekstrinum.  Ég taldi mig hafa lýst atvikum nokkuð vel og ljóst var að ungi maðurinn hafði keyrt allt of hratt miðað við aðstæður og miðað við hvernig hann lendir á mér.  Þegar ég ætla aðeins að spyrja út í þessa niðurstöðu brýnir ungi lögreglumaðurinn bara röstina og þar með er ljóst að mín sjónarmið eiga ekki upp á pallborðið í dag.  Ég þarf því að mæta í Orange County Court og greiða þar sekt fyrir þetta í ofanálag.  Tel mig heldur hafa dregið stysta stráið hérna.

Hvað um það, af þessari ástæðu eru bifreiðatryggingar gulls ígildi.

Frost á Fróni (Flórída)

Veðurfarið náði nýjum lægðum í nótt þegar að hitastigið datt niður fyrir 0.  Áður en ég uppgötvaði að hægt væri að kynda húsið lenti ég fremur óskemmtilegri uppákomu.  Að sjálfsögðu er ég ekki með dúnsæng hérna og því er yfirbreiðslan hefðbundið lak ásamt einhverju teppissnifsi.  Einungrun dúkkulísuhússins er ekki upp á marga fiska og glerið einungis einfalt.  Þetta þýðir að það verður næstum því jafnkalt í herberginu eins og það er úti.  Kyndingin ekki á og ég einungis með laksnifsið á mér þýddi að líkamshitinn var að nálgast frostmarkið.  Það tók mig hálfan dag að ná hita í kroppin í tveimur peysum undir jakkanum í vinnunni.  Þetta hefur þó skánað eftir að kyndingin var sett í gang og því vaknar maður alla vegna þokkalega volgur á morgnana.

Eftir þetta frost fór ég að hugsa til allra appelsínuskóganna sem hér eru.  Ekki eru þær sáttar við að fá frost í kroppinn.  Eftir talsverðar pælingar fór ég að grafast fyrir um hvað yrði um vesalings appelsínubændurnar.  Kemst þá að því að þegar von er á slíkum kuldaköstum eru öll vökvunarkerfi sett í gang með það að markmiði að halda hitastigi ávaxtarins góða yfir núllinu.  Við þurfum því ekki að hafa áhyggjur af því að uppskerubrestur hafi áhrif á appelsínuframboð á Íslandi á næstunni.  Nógar eru áhyggjurnar fyrir ;)

fimmtudagur, febrúar 11, 2010

Visteria Lane II

Ég er ekki þaulvanur bloggari og kann því ekki á öll trixin í bókinni.  Var búinn að taka nokkrar myndir af fallegu dúkkulísugötunni minni og vildi setja svona til hægri svona hliðarslædsjóv.  Hafði séð það á nokkrum öðrum síðum og vildi herma.  Eina vandamálið var að það er búið að taka mig upp undir fjóra daga að fatta hvernig á að gera þetta.  En árangurinn talar að sjálfsögðu sínu máli.

Eins og áður sagði er mín "Visteria Lane" afar krúttleg gata.  Hér er ekkert tré ósnyrt, engin blómabeð í órækt, allt gras slegið í sömu hæð, öll hús óaðfinnanleg og ekki pappírssnifsi að finna á götunum.  Þetta er í raun eins og klippt út úr sölubæklingi húsanna þar sem Eddi klippikrumla bjó en samt má segja að þetta myndband lýsi betur móralnum í hverfinu.

Hið fullkomna hverfi

Annars er búð að vera fjandi kalt hérna frá því að ég kom.  Stundum skríður hitastigið ágætlega upp þegar líður á daginn en þegar dregur fyrir sólu er eins gott að vera með eina 66 gráður N flíspeysu.

föstudagur, febrúar 05, 2010

Wisteria Lane

Fyrstu vikuna bjó ég í ágætis íbúð á Texas Avenue.  Umhverfið var kannski ekki upp á marga fiska og mörg húsin frekar hrörleg.  Fór einu sinni út að skokka og bjóst sífellt við að á mig yrði stokkið á næsta götuhorni.  Reyndar veit ég ekki hversu arðbært það er að "mugga" skokkara þar sem þeir eru heldur klæðalitlir, en maður veit aldrei

En nú er ég fluttur á Wisteria Lane.  Í fallega hvíta hverfið.  Hérna vaknar maður á morgnana, labbar út með kaffibollann, nær í moggann með kaffibollann í hendinni og heilsar nágrannanum.  Í Publix í "gamla" hverfinu voru allir starfsmenn og flestir gestir af afrískum- eða suður amerískum uppruna.  Hérna eru allir snjóhvítir, hvort sem það eru starfsmenn eða kúnnar.  Ótrúleg stéttaskipting svo létt sé að orði komist.

En án gríns er hverfið eins og klippt út úr Desperate Housewifes og er ég sannfarður um að hitta þær stöllur einhvern morguninn.  Hérna er líka auðvelt að komast í skokkið, stöðuvatn rétt fyrir neðan húsið og flottar hlaupaleiðir.  Búinn að prófa og er viss um að nú fær mig ekkert stöðvað.

fimmtudagur, febrúar 04, 2010

Spass muss sein

Vinnudagurinn er í lengri kantinum.  Unnið frá sólarupprás til sólseturs eða frá 7-18 að jafnaði.  Að sjálfsögðu á laugardögum líka.  Það þýðir þó ekki að ekki sé hægt að gera eitthvað skemmtilegt.  Það fyrsta sem kemur upp er að sjálfsögðu NBA.  Karfan tröllríður öllu sjónvarpi hérna og getur maður eytt öllum kvöldum í að horfa á körfubolta.  Hvort sem um er að ræða NBA, háskólaboltann eða jafnvel WNBA.  Það hefur lengi verið draumur hjá mér að fara á leik og núna var tækifærið.  Var varla kominn hér út fyrr en ég fór að kíkja á leikjadagskrá Orlando Magic.  Viti menn þeir voru í miðju "homestandi" og festi ég kaup á miðum handa hópnum á leik gegn Atlanta Hawks.  Við fjórmenningarnar af skrifstofunni (ég, Axel, Per og Jörgen) ásamt tveimur úr Jamaica genginu (Þráinn og Damien) skelltum okkur í höllina sem er ekki í nema um 5 mínútna fjarlægt frá íbúðinni. 

Það er kannski skemmst frá því að segja að Magic tók Hawks í bakaríð og var um hina bestu skemmtun að ræða.  Fyrir utan glæsitilþrif stjarnanna í Magic stóðu dansmeyjarnar sig afburða vel.  Einnig sýndi lukkutröll þeirra Magic manna (fjöllita dreki) ansi góða takta.



Eitt var þó algerlega úr takti við góða skemmtun körfuboltans.  Í hálfleik fór ég að fá mér eitthvað í gogginn og varð forláta pylsustandur fyrir valinu.  Þar var verið að bjóða upp á pylsur að þýskum hætti en því miður var standardinn ekki sá sami.  Grillaðar fyrr um daginn og lágu svo þarna í einhverjum hitapotti var ekki sjarmerandi og útkoman eftir því.  Það slær enginn Þjóðaverjanum við þegar bjóða skal upp á grillaða Bratwurst!

miðvikudagur, febrúar 03, 2010

Í Ameríku fæst allt

Að koma í kjörbúðina er ævintýri líkast.  Úrvalið dásamlegt og allir draumar ungra drengja rætast.  Fór í Publix ásamt vinnufélaganum og ætluðum við að kaupa eitthvað smotterí inn en fórum út með fulla kerru af óhollustu (góðgæti).  Demanturinn í þeirri kerru var að sjálfsögðu forláta pakki af Trix morgunkorni.  Trix hefur maður ekki fengið í hjartnær 30 ár og því löngu kominn tími á að rifja upp það sem á klakanum var bannað sökum óhóflegra og ólöglegra litarefna.  Það er skemmst frá því að segja að bragðið var nákvæmlega eins og maður mundi eftir því og stóðst allar væntingar.  Að auki var þetta svona sérútgáfa "Special edition" eða Trix Swirls ! 


Vonbrigðin voru þó helst þegar ég ætlaði að kaupa mér bjór.  Reyndar ekki í Trix ferðinni.  Ung og fremur óglaðleg stúlka spyr mig um skilríki, sem ekki var undarlegt þar sem að útlitið var upp á hið besta hjá mér.  Dreg stoltur upp ökuskirteinið og sýni henni og bendi henni á að 71 sé fæðingarár mitt.  Ekki leist henni á það og sótti yfirmann sinn.  Enn óglaðlegri kona um fimmtugt mætti á staðinn, skoðaði skirteinið en leist ekki á það frekar en stúlkunni og neitaði mér um afgreiðsluna á kippu af Yingling lager.  Ég lagði þó ekki árar í bát og bað Jörgen, annar vinnufélagi sem er danskur arkitekt um sextugt, um að kaupa kippuna.  Að sjálfsögðu þurfti hann einnig að sýna passann sinn en hann var svo heppinn að hafa hann og því var kippan keypt.  Þreyttur kani sem beðið hafði rólegur í röðinni í um 10-15min eftir að hafaríið með kippuna gekk yfir, sagði einfaldlega "Welcome to the States !"

þriðjudagur, febrúar 02, 2010

Orlando - Ævintýrið hefst

Þrátt fyrir að það hafi verið ákveðið fyrir um tveimur mánuðum síðar að ég myndi halda erlendis í vinnu þá var engan veginn hægt að undirbúa það.  Allt fram á seinasta dag var maður ekki að skilja að maður væri að yfirgefa fjölskylduna í nokkra mánuði.

Ég var búinn að ákveða að ég ætlaði að taka til við að blogga til þess að mínir nánustu gætu fylgst með hvað væri að gerast hjá mér, aðrir sem hugsanlega detta hér inn eru að sjálfsögðu velkomnir.  Stofnaði þessa bloggsíðu fyrir um 7 árum síðan og bloggaði heilum fjórum sinnum á 3ja ára tímabili áður en ég gafst upp.  Á reyndar moggabloggsíðu líka en mér leist betur á þessa þar sem að ég hef engan áhuga að birta lífshlaup mitt á meðal "moggabloggaranna".

Langaði að sjálfsögðu að hafa stóra og fallega mynd af börnunum í hausnum.  Þrátt fyrir góðan vilja hefur það tekið mig um 3 daga að koma henni þar fyrir.  Þar sem að bloggið mitt var svo gamalt þá var "editorinn" einnig gamall og mér ætlaði aldrei að takast ætlunarverkið að fá upp nýja stjórnborðið.  Leitaði logandi ljósi að einhverjum "layout" hnappi sem kom ekki fyrr en mér tókst að uppfæra dótið.

Nú er allavegna myndin kominn í hausinn.  Allir sem okkur þekkja vita hvaðan þessi mynd kemur enda prýddi álíka mynd jólakortið 2009.  Tekin seinasta sumar í Aðalvík á leiðinni upp á Darrann.  Ekki leiðinlegt að rifja upp þá ferð enda ein sú allra besta sem fjölskyldan hefur farið í.