þriðjudagur, júlí 27, 2010

Síðasta vika

Síðasta vika hefur verið frekar róleg.  Strákarnir hafa fengið leikfélaga, þá Maron og Árna sem eru á svipuðum aldri og þeir.  Reynt var að fara á ströndina en það hefur ringt frekar mikið þessa vikuna sem hefur komið í veg fyrir strandferðir.  Á sunnudaginn ákvað fjölskyldan að fara í óvissuferð, foreldrarnir voru þeir einu sem vissu hvert ferðinni væri haldið.   Fyrst var farið á Wendy's og hamborgari gúffaður með bestu lyst.  Síðan var ferðinni heitið í Rockland´s Bird Sanctuary.  Við vorum þónokkurn tíma að finna þetta þar sem merkingar eru yfirleitt ekki með besta móti á Jamaica.  Villtumst tvisvar af leið á leiðinni á áfangastað. 
Rockland's Bird Sanctuary er uppi í fjöllunum, keyrður var þröngur malarvegur þangað til að komið er að húsi sem er falið vel í gróðri.  Þegar þangað var komið tók maður á móti okkur, setti fólkið niður í stóla fyrir utan húsið, setti fræ á læri þeirra og litla flösku með sykurvatni í hendi.  Finkur komu og settust á lærin og kroppuðu í kornið.  Kólíbrífuglar komu og settust á puttann og drukku úr flöskunni.  Þetta gekk misvel í fjölskyldumeðlimi, Guðjón Andri var sérstaklega hrifinn af fuglunum en Sunneva var ansi smeyk við þá og vildi bara eltast við maura og skoða hundinn á bænum. 
Um kvöldið var loks ákveðið að elda humarinn sem var keyptur af karlinum á horninu fyrir framan Blue Diamond verslunarmiðstöðina.  Húsfreyjan tók sér matarskæri og stóran hníf í hönd, klippti, skar og hjó blessaðan humarinn.  Dýrunum var skellt í pott þar sem þau voru soðin og komu fallega bleik og hvít upp úr pottinum eftir matreiðslu.  Satt best að segja frábær matur, sérstaklega miðað við fyrstu reynslu okkar á risahumri.  Ekki skemmti að hafa hvítlaukssmjör, baguette og kælt hvítvín með.

1 ummæli:

Unknown sagði...

þið hafið það greinilega gott þarna : ),

bestu kveðjur