sunnudagur, júlí 11, 2010

Fleiri sögur af dýrum

Moskítóflugurnar hafa tekið ástfóstri við gömlu hjónin.  Þær hafa þroskaðan smekk og vilja bara gott og gamalt blóð.  Maður er stunginn út um alla fætur og hendur.  Strákarnir hafa sloppið betur en Sunneva hefur fengið tvö bit, vona að þau verði ekki mikið fleiri en það.
Það kom óboðinn gestur í eldhúsið okkar fyrir stuttu.  Guðjón kallaði upp að hann hafði séð kakkalakka og þegar húsfreyjan kom þar að blasti við stórt svart kvikindi sem lallaði í hægðum sínum um gólfið.  Húsbóndinn greip tissjú og batt endi á líf gestisins en húsfreyjan er enn á þeirri skoðun að þetta hafi verið stór bjalla en ekki kakkalakki í heimsókn.  Ef þetta er kakkalakki er það sá stærsti sem ég hef séð á minni ævi og hef ég séð nokkra.
Valdi var sendur út í búð að kaupa egg og smjör í gær en kom til baka með 4 spriklandi risahumra í plastpoka.  Þeir voru kannski ekki að sprikla mikið en voru kannski frekar í dauðateygjunum.  Næsta mál á dagskrá er að finna nógu stóran pott til að sjóða þá og finna matreiðsluaðferð.  Dugar ekki það sama með litlu humrana frá Íslandi.
Við höfum annars verið dugleg að kaupa ávexti, ljótustu en bragðbestu appelsínur sem við höfum smakkað, æðislegan ananas, papaya, mangó, melónur og banana.  Epli eru frekar dýr enda ekki eplaseason og allt innflutt frá Bandaríkjunum.  Matur er annars dýr hérna og maður leggur sig fram að kaupa local vöru sem er ódýrari, þar á meðal bjórinn, Red Stripe sem er með afbrigðum góður í hitanum, 30-35 gráður og mikill raki.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Mæli með Blue Mountain kaffinu :) Eitt það allra besta sem ég hef smakkað!