þriðjudagur, júlí 06, 2010

Hiti, sviti og dýralíf

 Óhætt er að segja að það er heitt og svitinn bogar af manni í landi reaggi og Marley.  Það tekur því ekkert fyrir húsmóðurina að reyna að halda sig huggulegri með því að skella öðru en sólaráburði í andlitið.  Ég þakka guði fyrir loftkælingu í íbúðinni, reyndar er loftkæling í báðum svefnherbergjum og í stofu. Sunneva sefur vel í hitanum, þó svo að betra sé að hafa smá kælingu svo hún vakni ekki í svitabaði.  Við tvær fórum í gönguferð í Blue Diamond verslunarmiðstöðina í dag þar sem ég stóð gjörsamlega kófsveitt í biðröð eftir Jamaísku símakorti í símabúðinni, skildi ekkert í því af hverju það sást ekki svitadropi á afgreiðsludömunni. 
Það er heilmikið dýralíf í garðinum hjá okkur.  Falleg og skrautleg fiðrildi flögra um hjá blómum og trjám í garðinum, ofurlitlar eðlur skjótast um húsið (hafa ennþá ekki heimsótt okkar íbúð frekar en flest önnur dýr sem betur fer).  Í kvöld þegar myrkrið var skollið á benti Valdi strákunum á lítinn gest fyrir framan íbúðina, þar var kominn agnarlítill froskur, svo lítill að hann varla stærri en feit og stór fluga.  Síðan höfum við einn nágranna úr dýraríkinu sem býr á jarðhæðinni, hund sem geltir endalaust við öll tækifæri sem gefast. Í gær fórum við á ströndina á Doctors Cave Beach í Mobay,  strákarnir syntu út að kóralrifum þar sem þeir sáu skrautlega fiska synda um, Dórur og Nemóa, stingskötu og smokkfiska.  Þeir fundu líka sokkið skip þó svo það hafi ekki verið í líkingu við Pirates of the Carribean.

Engin ummæli: