föstudagur, september 17, 2010

Fjölskyldunni rænt

Löngu kominn tími á að ég tæki aftur við síðunni.  Frúin tók við á meðan hún dvaldi hérna með mér og hef ég ekki náð takti aftur (reyndar hef ég aldrei náð taktinum).

Var heima á klakanum í 2 vikur í júní og var um hreint tvær frábærar vikur að ræða.  Kom heim 17. júní og má segja að landið hafi tekið manni opnum örmum.  Frábært veður allan tímann og fann maður vel hversu sumarið heima er stórkostlegt (oftast).  Ljúfur hiti og allt í blóma.  Nema þá helst trjárunnarnir sem ég er búinn að stinga niður á lóðinni.  Í hvert skipti sem ég sting niður trjáplöntu, rignir ekki í tvo mánuði á eftir.  Verður forvitnilegt að sjá hversu margar muni lifna við næsta vor.

Stór hluti af dvölinni var Shell-mótið í eyjum.  Fór með Adrían og 6. flokki Stjörnunnar og áttum við stórkostlega 5 daga í Vestmannaeyjum.  Eftir fjögurra daga keppni stóðu Adrían og félagar uppi með Ystaklettsbikarinn í höndunum.  Frábær og samhentur hópur Stjörnufólks gerði þessa ferð ógleymanlega.  Við feðgar ætlum að mæta enn sterkari að ári og vonandi þá með alla fjölskylduna.


Um leið og við komum heim var drifið í því að pakka saman og tveimur dögum síðar var öll fjölskyldan á leið til Jamaica.  Ætlunin var að dvelja allt skólafríið á þessari paradísareyju.

Ýmislegt dreif á okkar daga þann tíma og gerði frúin grein fyrir því flestu í fyrri pistlum.  En eftir um 7 vikna dvöl gerðist hið óumflýjanlega - Fjölskyldunni var rænt frá mér þann 17. ágúst og hef ég verið hér einn síðan.  Það náðist mynd af atburðinum en þrátt fyrir átakanlegar stundir með lögreglunni í Montego Bay þá ætlar hún ekkert að aðhafast í málinu og því lítur út fyrir að ég verði hér einn um sinn.  Ég ætla að birta eina af myndunum sem náðist af ráninu hér að neðan og vonandi fæ ég nægar vísbendingar til þess að finna fjölskylduna a.m.k. fyrir jólin.


Engin ummæli: