föstudagur, ágúst 13, 2010

Í Negril er gott að djamma og djúsa diskótekunum á

Þar sem fjölskyldan hefur verið heima við og Valdi í vinnu ákvað hann að taka sér smá frí og við skelltum okkur til Negril.  Við notuðum tækifærið og fórum 2. ágúst sem er frídagur í Jamaica þar sem þá var þrælahald afnumið.  Við reyndum að bóka herbergi á All Inclusive Resorti en þar er ekki gert ráð fyrir stærri fjölskyldu en 4 manna per herbergi þó svo einn fjölskyldumeðlimur sé 2 ára og sofi í barnarúmi.  Við enduðum í litlu hóteli BarBbarn þar sem gengið er beint út á strönd frá veitingahúsinu, fengum meira að segja local verð á hótelinu .  Við nutum lífsins, flatmöguðum á ströndinni eins og túristar gera og skoðuðum okkur um.  Við kíktum á þekkt veitingahús sem virðist vera skyldustopp í Negril sem heitir Rick's Café.  Það var pakkað af túristum í bæði skiptin sem við kíktum þangað.  Aðalaðdráttaraflið voru gaurar sem hafa það af atvinnu að stökkva niður af háum pöllum eða trjám í sjóinn fyrir neðan.  Guðjón Andri og Adrían Elí urðu líka að prófa þetta, byrjuðu að stökkva af kletti rétt fyrir ofan sjóinn og þegar það var ekkert mál varð að prófa að fara á klett fyrir ofan og stökkva ofan af honum.  Við gerðum ekki ráð fyrir að þeir myndu þora því en sá stutti rauk strax af stað og stökk eins og enginn væri morgundagurinn.  Það tók aðeins lengri tíma fyrir þann stóra að stökkva en það hafðist rétt fyrir myrkur.  Eftir þetta stuð var haldið á flottan veitingastað með æðislegu útsýni yfir sjóinn og með live reaggi tónlist.
Hótelið var rólegt en fyrsta nóttin var erfið þar sem við náðum í skottið á aðalpartýhelgi Jamaica (verslunarmannahelgin skiljiði) og það var dúndurpartý rétt hjá hótelinu, sem betur fer var mun rólegra hin kvöldin. Maður tók eftir einu, fólk er ekki hrætt við að reykja Ganja hvar sem er og hvenær sem er á ströndinni í Negril, meira að segja snemma á morgnanna fann maður lyktina.  Ef við hefðum viljað hefðum við getað keypt efni mörgum sinnum miðað við hversu oft okkur var boðið það.

Engin ummæli: