sunnudagur, ágúst 15, 2010

Hlutverk kynjanna eru misjöfn

Ég hef aðeins dottið í kynjarannsóknir hér á Jamaica.  Minntist á það við Valda þegar við fórum að versla í Blue Diamond í dag að þar hanga karlar og strákar fyrir utan búðina og betla.  Hef aldrei séð konu gera þetta á eynni, aðeins karla.
Konur hérna eru fullar sjálftrausts, þó svo margar þeirra séu íturvaxnar í meira lagi eru þær ekkert að skammast sín fyrir það, fara bara í þröngu gallabuxurnar og skvísubolinn.
Atvinnuframlag kvenna held ég að sé ansi hátt.  Þær vinna sum störf sem maður er aðeins vanur að sjá karlmann framkvæma, t.d. að vinna á bensínstöðvum.  Ég hef bara séð konur dæla bensíni á bílana.  Aðeins konur eru við afgreiðslustörf í búðum, karlarnir eru í lagerstörfum eða að raða i pokana.
Karlar hér geta verið ansi ýtnir ef kona er ein á gangi, góla til hennar, flauta á hana úr bílnum og svipað.  Þetta er ekki alveg að falla í góðan jarðveg hjá frúnni, get bará ekki tekið þessu sem hrósi.
Síðan eru það túristabúllurnar.  Local konur eru í vinnu við að veiða túristana inn í búðina síðan er alltaf eigandinn bak við búðaborðið og í öllum tilfellum er það indverskur karl.  Indverjarnir eiga allar blessaðar búllurnar og það er hreint út sagt hundleiðinlegt að díla við þá.  Jamaica mennirnir eru líka ansi lunknir að leika á grunlausa túrista.  Þær local konur sem við þekkjum hér hreinlega banna okkur að fara á markaði nema að taka einhvern með sér svo ekki sé verið að smyrja margfalt ofan á vöruna sem á að kaupa.  Mér finnst persónulega hundleiðinlegt að fara á þessa markaði, er ekki týpan í þetta, finnst miklu þægilegra að fara í búð (ekki túristabúllu) og versla þar vitandi hvað varan kostar.
Uppáhaldsbúðin mín er stórt apótek í vesturbænum sem er að selja miklu meira en lyf.  Þeir eru með föt, bækur, allskonar gjafavöru, mat og ísbar, selja æðislega góðar iskúlur.

föstudagur, ágúst 13, 2010

Í Negril er gott að djamma og djúsa diskótekunum á

Þar sem fjölskyldan hefur verið heima við og Valdi í vinnu ákvað hann að taka sér smá frí og við skelltum okkur til Negril.  Við notuðum tækifærið og fórum 2. ágúst sem er frídagur í Jamaica þar sem þá var þrælahald afnumið.  Við reyndum að bóka herbergi á All Inclusive Resorti en þar er ekki gert ráð fyrir stærri fjölskyldu en 4 manna per herbergi þó svo einn fjölskyldumeðlimur sé 2 ára og sofi í barnarúmi.  Við enduðum í litlu hóteli BarBbarn þar sem gengið er beint út á strönd frá veitingahúsinu, fengum meira að segja local verð á hótelinu .  Við nutum lífsins, flatmöguðum á ströndinni eins og túristar gera og skoðuðum okkur um.  Við kíktum á þekkt veitingahús sem virðist vera skyldustopp í Negril sem heitir Rick's Café.  Það var pakkað af túristum í bæði skiptin sem við kíktum þangað.  Aðalaðdráttaraflið voru gaurar sem hafa það af atvinnu að stökkva niður af háum pöllum eða trjám í sjóinn fyrir neðan.  Guðjón Andri og Adrían Elí urðu líka að prófa þetta, byrjuðu að stökkva af kletti rétt fyrir ofan sjóinn og þegar það var ekkert mál varð að prófa að fara á klett fyrir ofan og stökkva ofan af honum.  Við gerðum ekki ráð fyrir að þeir myndu þora því en sá stutti rauk strax af stað og stökk eins og enginn væri morgundagurinn.  Það tók aðeins lengri tíma fyrir þann stóra að stökkva en það hafðist rétt fyrir myrkur.  Eftir þetta stuð var haldið á flottan veitingastað með æðislegu útsýni yfir sjóinn og með live reaggi tónlist.
Hótelið var rólegt en fyrsta nóttin var erfið þar sem við náðum í skottið á aðalpartýhelgi Jamaica (verslunarmannahelgin skiljiði) og það var dúndurpartý rétt hjá hótelinu, sem betur fer var mun rólegra hin kvöldin. Maður tók eftir einu, fólk er ekki hrætt við að reykja Ganja hvar sem er og hvenær sem er á ströndinni í Negril, meira að segja snemma á morgnanna fann maður lyktina.  Ef við hefðum viljað hefðum við getað keypt efni mörgum sinnum miðað við hversu oft okkur var boðið það.

fimmtudagur, ágúst 12, 2010

Matur á Jamaíka

Ég er farin að þekkja nokkuð vel matinn sem heimafólkið borðar og er enn að kynnast ávöxtum og grænmeti.
Kjöt er frekar ódýrt út úr búð, nautakjöt hlægilega ódýrt miðað við Ísland, annars er aðallega svín og kjúklingur í boði fyrir utan geitina að sjálfsögðu.  Geitur eru út um allt, við alla vegakanta en þær virðast höafa meira vit í kollinum en blessaðar kindurnar á Íslandi þar sem þær eru ekkert að flækjast út á götuna þegar bílar æða fram hjá, keyrði mun oftar fram hjá dauðum hundum sem búið er að keyra yfir. Þeir virðast flækjast út um allt og oft litið öðruvísi á þá en hunda á Íslandi.
Helsta eldunaraðferð á Jamaica er Jerked meat.  Kjúklingur og svín er eldað með þessum hætti.  Kjötið er kryddað með sérstakri aðferð og hægeldað á grilli í langan tíma, þetta gefur matnum reykt bragð, alls staðar þar sem fólk kemur saman er verið að jerka með tilheyrandi reyk.  Geitakjötið er yfirleitt matreritt sem hinn klassíski réttur; Curry Goat, kjötið saxað í litla bita með beinum og tilheyrandi þannig að maður verður að vera duglegur að týna beinflísar út.
Jamaica búar borða líka mikið af fiski, heilgrilla fiska sem veiddir eru í ám og sjónum, saltfiskur og Ackee er einn þjóðarrétta þeirra.  Rækjur eru mikið borðaðar hérna, settar í lög með sterku chili og að sjálfsögðu grillaðar.  Höfum smakkað þannig í Far out Fish Hut, bara æðislegt.
Við höfum verið dugleg að prófa nýjar tegundir af Jamaiskum ávöxtum, erum að sjálfsögðu alltaf með banana, ananans, melónu og appelsínur.  Höfum líka prófað Ackee sem er mjög sérstakur, er eitraður ef hann er ekki nógu þroskaður og einnig ef hann er ofþroskaður.  Hann er rauður að utan og verður tilbúinn þegar hann opnast.  Hann er svolítið sérstakur á bragðið eins og hnetukennd rófa.
Breadfruit hef ég ekki smakkað, er að stærð eins og melóna en er trefjakennd og notað í eldaða rétti.
Guinep er selt út um allar götur núna þar sem að núna er uppskeru seasonið, þetta eru lítil græn ber sem þú borðar kjötið sem er sætt og "fleshy".
Jew (June) Plum týndu strákarnir í ferð gegnum skóg um helgina.  Hélt fyrst að þetta væri lime en svo er ekki.  Þar sem ávöxturinn var grænn var hann ekki alveg þroskaður og svolítið sítruskenndur.
Stoppuðum á leið um landið hjá einum af mjög mörgum sölubásum meðfram þjóðveginum og keyptum Sweet Sop (Anon, Sugar Apple) sem er mjög sætur og bragðgóður ávöxtur.
Smökkuðum líka á markaðinum í dag Starfruit (stjörnuávöxt) sem var mjög góður og sætur.  Alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og mér finnst bara nauðsynlegt að prófa það sem vex á staðnum ef það er hægt.
Læt fylgja með góðan link sem lýsir vel þessum ávöxtum ásamt mynd.
http://www.jamaicans.com/cooking/foods/fruitglossary.shtml
Þetta ætti að duga í bili, bæti við nýju bloggi á morgun

Dagur í Falmouth

Eftir að hafa skammast í Valda yfir að vera lélegur að blogga er ég komin í sama farið.  Reyni að vinna þetta upp enda innan við vika til heimferðar.  Í dag ákvað ég að fara til Falmouth með brjálæðingana mína þar sem stóri markaðsdagurinn er alltaf á miðvikudögum og þetta er síðasti miðvikudagur okkar á Jamaica :O(
Við komum þangað rétt fyrir 11, varla hægt að skáskjóta sér um göturnar þar sem bílum var lagt á götunni og aðeins pláss fyrir einn bíl í einu, stoppað í skotum í átt að endamarki.  Þar sem engin stæði eru til staðar var tilvalið að leggja bílnum á vinnusvæði Valda, enda það beint á móti markaðnum. Eftir smá tuð við öryggiskvensurnar við inngönguhliðið og upphringingu í Valda tókst að landa bílnum í stæði.
Miðvikudagsmarkaðirnir eru mjög stórir, sölufólk kemur alla leið frá Kingston og það er allt milli himins og jarðar til sölu þar.  Ingibjörg kom með strákana sína og við þræddum saman næstum því alla sölubása staðarins.  Eins og alla aðra daga var hitinn vel yfir 30 gráður, sól og raki raki, hiti og mikill sviti.  Ég fer allra minna ferða með lítið handklæði og vatnsbrúsa til að hafa þetta af.  Augljóst er að skólinn er að byrja þar sem mikið var um skólatöskur, blýanta, penna og stílabækur.  Allskonar skrautlegir kjólar, bolir, pils, nærfatnaður og skór voru til sölu fyrir konur og stelpur.  Satt best að segja myndi ég ekki láta sjá mig í mörgum þeirra heima þannig að ég féll ekki beint fyrir fatnaðinum auk þess sem hann mun ekki nýtast vel í kuldanum heima.  Það var samt gaman að skoða mannfólkið og allt sem var til sölu.  Endaði nú samt í matarhlutanum og keypti það sem vantaði., appelsínur, ananas og stjörnuávöxt (sem var mjög góður).
Básarnir líta nokkurn veginn svona út:  http://www.picturesfromjamaica.com/wp-content/uploads/2006/10/fruit-stall-02.jpg
Eftir markaðsröltið fórum við yfir á byggingasvæðið og skoðuðum hvernig verkinu miðar hjá Valda og félögum.  Það er að koma mynd á svæðið, sum hús komin alllangt á leið í byggingu en margt samt eftir.