föstudagur, mars 05, 2010

Manatees

Í viðleitni okkar vinnufélaaganna til þess að drekka í okkur menningu Ameríku reynum við að gera eitthvað uppbyggilegt á sunnudögum.  Ég er ekki viss um að skemmtigarðarnir hér í kring myndu teljast menning en óháð því þá er ég ekki til í að fara í Disney World án krakkanna.  Hefði mig ekki í það að segja þeim að ég væri nýbúinn að heimsækja Mikka mús og félaga.

Seinasta sunnudag héldum við í Blue Spring State Park og var megintilgangurinn að sjá hið magnaða fyrirbæri Manatee.  Eins og nafnið hljómar er næsta víst að um sé einhverja ógurlega skepnu að ræða.  Blue Spring er uppspretta sem rennur til sjávar og er hitastigið ávallt 22 gráður í þessari lind.  Manateeinn siglir tignarlega upp þessa á og heldur sig á þessum slóðum yfir veturinn.  Á vissum tímabilum er mannskepnunni leyft að kafa í vatninu og kynnast þessu ógnardýri.  Það er ekki laust við að maður rifji upp háhyrninginn Tilly sem um daginn drap sinn þriðja þjálfara á ferli sínum í Sea World.  Ekki er þó þekkt að Manateeinn hafi orðið manni að bana.  Gríðarlega spenntir fylgdumst við með atferli dýrsins frá hinum ýmsu útsýnispöllum og fengum okkur góðan göngutúr upp að uppsprettu.

En þegar öll kurl koma til grafar er Manateeinn ekkert annað en skeggjuð sækýr.  Algerlega laus við allt skemmtanagildi.  Sílspikuð lullar hún sér fram og aftur ánna.  Enginn hefur í raun áhuga á sækúnni og hún hefur ekki áhuga á neinum.  Hún á sér enga náttúrulega óvini en á undir högg að sækja þar sem að þær í sífellu er að flækjast í skrúfum báta sem sigla um strendur Flórída.

Þetta þykir stórmerkilegt hér í Flórída.  Myndir af skepnunni má sjá hér til hliðar.

Engin ummæli: