laugardagur, maí 29, 2010

Krókódílar

Í lok maí þurftum við að flytja burt úr dúkkulísuhverfinu okkar í Lake Baldwin.  Ég og Per áttum ljúfsára kveðjustund með "the Locals" á Winestyles.  Winestyles er lítill vínbar í litla þorpinu og vorum við eins og heimalingar þarna.  Þekktum orðið hvern kjaft, reyndar voru þeir ekki margir, enda voru þessir kjaftar þarna öll kvöld.  James fyrrum trommar Iron Butterfly, George frá Kúbu, sá rangeygði, Jeanie "in the bottle" ásamt eigendunum Mark gyðingnum frá New York og feitu konunni hans og fleiri og fleiri.  Það vakti ávallt lukku þegar við Per mættum á staðinn og oft mikið skrafað.

En núna var haldið á túristaslóðir.  Ég og Axel vorum búnir að fá okkur kytru í Westgate Palace sem er 19 hæða turn við endann á International Drive.  International Drive, eða I-drive, er helsta túristagatan í Orlando.  Þaðan er stutt í bæði Universal, Disney og svo er Wet'n'Wild beint á móti.  Þessi gata er óttalega farin að láta á sjá og lítið spennandi með öllum sínum ljósaskiltum.  En góða við þetta var að sjálfsögðu að maður gat labbað í flest það sem maður langaði til.

Eitt einkennismerki Flórída er að sjálfsögðu krókódíllinn.  Þrátt fyrir það átti ég ekki beint von á að sjá hann í garðinum hjá mér.  Var á leiðinni í lyftuna þegar tvær litlar stelpur spyrja hvort að ég hafi séð krókódílinn.  Eitthvað var ég vantrúaður á þetta en kíkti samt út um gluggann og viti menn, þarna lá hann í makindum sínum.


Þetta var reyndar enginn risi, sennilega í kríngum 4 fet (að sjálfsögðu er allt í fetum núna) og að öllum líkindum fremur nýsloppinu úr krókódíla-mínigolfinu (sjá myndir hér til hliðar).  Þessu til stuðnings þótti honum ekkert leiðinlegt að láta fóðra sig.  Ekki hafði ég áhuga á að fíflast í honum en nokkrir ungir drengir voru ófeimnir við hann og fannst lítið að því að atast soldið í honum.  Þess má geta að það er smá strönd ætluð fyrir litlu börnin í ca. 3 metra fjarlægð frá vatninu.  Sjarmerandi.

fimmtudagur, maí 20, 2010

Miami

Ég flaug aftur til Orlando þann 13. apríl.  Sótt var um atvinnuleyfið mitt í Jamaica í desember og voru hin gullnu plögg komin á sinn stað í inboxið.  Þar með var þó ekki kálið sopið því að nú þurfti að fara og heimsækja Jamaiska konsúlinn í Miami. 

Konsúllinn atarna er ekki mikill vinnuhestur og opnar einungis skrifstofu sína milli klukkan 9-12 á morgnana.  Milli Orlando og Miami eru ríflega 300km og því var ljóst að það þurfti að fara snemma af stað.  Ekki verður þó sagt að flókið sé að fara til Miami, beygt af I4 niður á Florida Turnpike og svo er bara stímt niður eftir.  Förin gekk að óskum og vorum við vinnufélagarnir komnir til Konsúlsins um hálf ellefu.  Þar tók við ákveðinn prósess sem innifól ýmsa upplýsingagjöf og síðan ætluðu þessir ágætu starfsmenn einfaldlega að taka passann af okkur og síðan áttum við að koma síðar og sækja hann, þ.e. næsta dag eða síðar.  Þetta gekk að sjálfsögðu ekki og eftir smákvabb var samið um hraðgjald og þá tæki prósessin um klukkutíma.

Fórum og fengum okkur smá göngutúr og skoðuðum nokkrar þokkalega stórar byggingar í miðbænum (smá innanhússhúmor - þetta eru svokallaðir Al Banosar.  Ef einhver fattar þennan gef ég honum milljón dali).  Vorum síðan mættir hjá konsúlnum rétt fyrir lokun.  Þurftum þó að húka þar í auka klukkutíma áður en við fengum aðgangsmiðann að Jamaica.  Þegar aðgangsmiðinn var lesinn þá var í vegabréfinu einn stimpill og tvær handskrifaðar línur, ekki nema von að maður hafi þurft að borga hraðgjald.  Skanna stimpilinn inn og set hann hér inn við tækifæri.

Læt hér einnig fylgja tvær myndir af mér sem endurspegla nýtt og kraftalegra vaxtarlag sem mér hefur áskotnast hér í USA.  Fleiri og nýrri myndir eru að sjálfsögðu hér til hliðar, er örlítið duglegri við að uppfæra þar.


Á Travel Channel horfði ég um daginn á þátt um 15 "most sexy beaches in the world".  Næst mynd er einmitt tekin á þeirri í öðru sæti eða South Beach Miami.



Þess má kannski einnig geta að ég hef einmitt legið heldur spengilegri á the most sexy beach in the world sem valin var á Travel Channel sem var Ipanema í Rio de Janeiro.

þriðjudagur, maí 18, 2010

Lokadagar marsmánaðar

Mér hefur ekki enn tekist að gerast alvörubloggari þrátt fyrir mjög góðan ásetning.  Ástæðan er þó kannski ekki leti eða áhugaleysi fyrir blogginu heldur má kenna atburðaleysi hér að mestu um.  Í mars gerðist heldur lítið.  Skítaveður gekk yfir Flórída og lítið spennandi að gera.

Þann 1. apríl flaug ég síðan heim og átti afar ánægjulega páska með fjölskyldunni.  Ég var núna búinn að vera í tæpa 2,5 mánuði í burtu og var aðskilnaðurinn ansi erfiður.  Við þökkum þó tækninni fyrir að gera þetta mun bærilegra.  SKYPE er frábær hlutur.  Ég hafði aldrei prófað þetta fyrr, enda kannski haft litla ástæðu til.  Núna spjallar maður reglulega við alla í fjölskyldunni og það í mynd og alles.  Strákarnir hringja þegar þeir vilja (muna) og þetta tryggir að sú stutta man eftir pabba sínum.

Þegar ég var sóttur á flugvöllinn var Sunneva dálítið feimin en það tók ekki nema daginn til að vinna traust hennar aftur.  Strákarnir eru þó heldur fljótari að bregðast við þessum breytingum.

Fór út aftur þann 13. apríl og mun ég rifja þann kafla upp á næstu dögum.