Í lok maí þurftum við að flytja burt úr dúkkulísuhverfinu okkar í Lake Baldwin. Ég og Per áttum ljúfsára kveðjustund með "the Locals" á Winestyles. Winestyles er lítill vínbar í litla þorpinu og vorum við eins og heimalingar þarna. Þekktum orðið hvern kjaft, reyndar voru þeir ekki margir, enda voru þessir kjaftar þarna öll kvöld. James fyrrum trommar Iron Butterfly, George frá Kúbu, sá rangeygði, Jeanie "in the bottle" ásamt eigendunum Mark gyðingnum frá New York og feitu konunni hans og fleiri og fleiri. Það vakti ávallt lukku þegar við Per mættum á staðinn og oft mikið skrafað.
En núna var haldið á túristaslóðir. Ég og Axel vorum búnir að fá okkur kytru í Westgate Palace sem er 19 hæða turn við endann á International Drive. International Drive, eða I-drive, er helsta túristagatan í Orlando. Þaðan er stutt í bæði Universal, Disney og svo er Wet'n'Wild beint á móti. Þessi gata er óttalega farin að láta á sjá og lítið spennandi með öllum sínum ljósaskiltum. En góða við þetta var að sjálfsögðu að maður gat labbað í flest það sem maður langaði til.
Eitt einkennismerki Flórída er að sjálfsögðu krókódíllinn. Þrátt fyrir það átti ég ekki beint von á að sjá hann í garðinum hjá mér. Var á leiðinni í lyftuna þegar tvær litlar stelpur spyrja hvort að ég hafi séð krókódílinn. Eitthvað var ég vantrúaður á þetta en kíkti samt út um gluggann og viti menn, þarna lá hann í makindum sínum.
Þetta var reyndar enginn risi, sennilega í kríngum 4 fet (að sjálfsögðu er allt í fetum núna) og að öllum líkindum fremur nýsloppinu úr krókódíla-mínigolfinu (sjá myndir hér til hliðar). Þessu til stuðnings þótti honum ekkert leiðinlegt að láta fóðra sig. Ekki hafði ég áhuga á að fíflast í honum en nokkrir ungir drengir voru ófeimnir við hann og fannst lítið að því að atast soldið í honum. Þess má geta að það er smá strönd ætluð fyrir litlu börnin í ca. 3 metra fjarlægð frá vatninu. Sjarmerandi.